Flýtilyklar
Aðstoð og handverk
Nú er Handverkshátíðinni lokið þetta árið. Þetta tókst mjög vel í alla staði og við erum rosalega ánægð með hve margir félagar sáu sér fært að leggja hönd á plóginn við vinnuna í ár. Hátíðin er stór þáttur í fjáröflun okkar og Ungmennafélagsins Samherja og það er alltaf jafn gaman að finna hve margir vijla taka þátt og vera með. Við settum til dæmis hraðamet í frágangi á sýningunni á sunnudeginum. Ragnar, Eiður og Víðir starfa áfram í kringum hátíðarmálin með Samherjum og öðrum skipuleggjendum til þess að gera hátíðina upp.
En að öðru; við höfum ekki setið auðum höndum þótt hátíðin sé búin. Tvær aðstoðarbeiðnir hafa borist Dalbjörg á undanförnum dögum. Þann 23. ágúst kom beiðni frá lögreglunni á Húsavík til svæðisstjórnar á svæði 11 vegna fjögurra ferðamanna sem voru strand á Sprengisandsleið með bilaðan bíl. Hlynur og Ingi fóru af stað á Cruiser til aðstoðar fólkinu um kl. 14 og komu til baka um kl. 18. Aðgerðin gekk vel, allir komust heilir á húfi til byggða og sömuleiðis bifreið ferðafólksins, en í ljós kom að farin var lega í afturhásingu.
Önnur aðstoðarbeiðni barst þann 25. ágúst þegar félagar í Björgunarsveitinni Tý voru á leið í Tómasarhaga til að taka við gæslustörfum af Dalbjargarfélögum sem þar voru fyrir. Bifreið þeirra bilaði og fóru fjórir Dalbjargarfélagar til aðstoðar með nauðsynlegan búnað til þess að unnt væri að halda áfram ferðinni. Tveir félagar fóru úr húsi um kl. 17:00 á Dalbjörg 2 en aðrir tveir lögðu af stað á einkabíl félagsmanns um kl. 21:00 með frekari búnað. Vel gekk að koma bilaða bílnum í lag og voru Dalbjargarfélagar komnir í hús um kl. 01:30 aðfaranótt þriðjudags.