Lög fyrir Hjálparsveitina Dalbjörg
Samþykkt á aðalfundi Dalbjargar 21. apríl 2016.
1. grein
Félagið heitir Hjálparsveitin Dalbjörg, skammstafað HSD. Heimili og varnarþing er Eyjafjarðarsveit. Sveitin er aðili að Slysvarnafélaginu Landsbjörg og hlýtur almennum lögum og siðareglum þess.
2. grein
Hlutverk félagsins er að reka öflugt björgunar- og slysavarnastarf.
3. grein
Félagar
Allir þeir sem eru á 17. ári geta hafið störf sem félagar í Hjálparsveitinni Dalbjörg. Eru félagar teknir inn sem nýliðar á næsta aðalfundi.
Félagar þurfa að ljúka þjálfun sem stjórn hverju sinni ákveður og einnig í samræmi við kröfur S.L.
4. grein
Tryggingar
Stjórn sveitarinnar skal sjá um tryggingar fyrir eigur sveitarinnar. Einnig skal stjórn sjá til þess að félagar séu skráðir eins fljótt og auðið er til Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þannig að þeir séu tryggðir í öllu starfi.
5. grein
Almennir fundir
Yfir helstu starfsmánuði (september – júní) skulu almennir sveitarfundir sem og stjórnarfundir haldnir minnst mánaðarlega. Þeir skulu boðaðir á fullnægjandi hátt og fundargerðir skulu ritaðar.
6. grein
Aðalfundur
Aðalfund Hjálparsveitarinnar Dalbjargar skal halda eigi síðar en í apríl ár hvert. Hann hefur æðsta vald í málefnum sveitarinnar og tekur þær ákvarðanir um starfsemi hennar sem þörf er á. Kosningarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa félagar sem hafa starfað með sveitinni í 12 mánuði hið minnsta og hafa náð 18 ára aldri.
Aðalfundur er löglegur ef félagar sveitarinnar eru boðaðir með tveggja vikna fyrirvara og að lágmarki 20 fullgildra félaga mæti á fundinn. Ef sá fjöldi næst ekki skal auglýst aftur og þá telst fundur löglegur óháð fjölda.
Verkefni aðalfundar eru:
1. Formaður setur fundinn og tilnefnir fundarstjóra og ritara.
2. Staðfesting á kjörgengi fundarmanna.
3. Skýrsla stjórnar.
4. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
5. Inntaka nýliða og fullgildra félaga.
6. Breytingar á lögum.
7. Kjör stjórnar og tveggja endurskoðenda.
8. Önnur mál.
7. grein
Stjórn
Stjórn Hjálparsveitarinnar Dalbjargar skal skipuð 5 fulltrúum sem kosnir eru á aðalfundi. Formaður og gjaldkeri skulu kjörnir sérstaklega til tveggja ára en aðrir fulltrúar til eins árs. Ekki mega fleiri en fjórir stjórnarmenn ganga úr stjórn á milli ára, nema með sérstöku leyfi og samþykki aðalfundar. Kosið er á víxl um formann og gjaldkera. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Skal stjórn koma saman eigi síðar en mánuði eftir aðalfund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum.
8. grein
Varamenn
Varamenn í stjórn skulu vera tveir. Tveir efstu menn í kosningu til stjórnar sem ekki ná kjöri í aðalstjórn eru sjálfkrafa varamenn í stjórn. Ef varamaður gengur inn í stjórn gegnir hann þeirri stöðu út sama kjörtímabil. Séu ekki nægilega margir í framboði til þess að embætti varamanns eða -manna verði skipuð með framangreindu móti, skal halda sérstaka kosningu um varamenn eða, eftir atvikum varamann til stjórnar.
9. grein
Kosning
Í félaginu skal vera starfandi uppstillingarnefnd skipuð þremur aðilum sem tilnefndir eru á janúarfundi ár hvert og sjái þeir til þess að næg framboð verði til stjórnar-, formanns- og gjaldkerakjörs hverju sinni. Framboðsfrestur renni út viku fyrir aðalfund í síðasta lagi og skuli þá uppstillingarnefnd auglýsa framboðin á miðlum félagsins. Náist ekki að manna framboð viku fyrir aðalfund falla framangreind tímamörk niður. Nefndin skuli einnig halda utan um kosningar á aðalfundi og sannreyna kjörgengi félaga fyrir kosningar í samráði við sitjandi stjórn. Að aðalfundi loknum telst uppstillingarnefnd hafa lokið störfum í þágu félagsins. Falli atkvæði jafnt skal kosið aftur á milli þeirra sem hafa hlotið jöfn atkvæði. Kjörseðill er því aðeins gildur að kosnir séu jafnmargir og kjósa skal hverju sinni. Kosning skal ávallt vera skrifleg.
10. grein
Almennt
Stjórn sveitarinnar skal leitast við að fela félögum hennar verkefni eftir áhugasviði og hæfni hvers og eins. Stjórn skal sjá til þess að félagar hafi kost á því að sækja þau námskeið sem krafist er í þjálfun þeirra.
11. grein
Leggist sveitin niður skulu eigur hennar renna til sveitarfélagsins til varðveislu eða ráðstöfunar í samráði við stjórn Hjálparsveitarinnar Dalbjargar og lög Slysavarnafélagsins Landsbjargar.