• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

“Sæll bóndi”

“Sæll bóndi”
Á Sprengisandi

     Gærdagurinn byrjaði með nokkrum örvæntingarfullum símtölum til að fá menn til að dratthalast út í góða veðrið. Ég vaknað um 7 leitið vitandi að ég hafði enga ástæðu til að fara á fætur fyrr en klukkutíma seinna en þá var mér litið út um gluggann. Við mér blasti heiðskýr himinn og þvílík blíða. Nokkur árangurslaus símtöl sem voru öll á sömu vísuna “Pétur ég er að fara að vinna” eða “ég er að verða búin að skrópa mig úr skólanum”. Þá var bara eitt að gera, athuga hvernig gengi í fjósi hjá Hlyn.

 

Það stóð ekki á Hlyn frekar en fyrri daginn, hann var klár á sleða. Lögðum við í smá “skreppu” inn á Glerárdal um 10:30 og það var allt eins og best var á kosið, veðrið og færið hrikalega gott og snilldar ferðafélagi. Neðan við Súlur var fyrsta stoppið, það var allt svo dásamlegt að það var klárt að við færum inn í Laugafell og bara upp á Vatnajökul.

            Þannig fór það, hugmyndin komin og af stað inn Glerárdalinn í Lamba. Áfram upp gilið og upp á Þrömina, niður í Skjóldal og suður upp úr honum. Þræddum við kambana en það var grunnt á þeim þar til að við enduðum í Klakahöllinni (Litla-Kot). Snjóléttasti parturinn að baki og nú var stóra gjöfin í gengum Bergland og í Laugafell enda bóndinn orðinn svangur. Snæddum við hádegismatinn kl 13:30 og lögðum af stað beina leið að Tungnafellsjökli.

            Færið var orðið rosalegt þegar við nálguðumst jökulinn púður og meira púður. Upp á jökulinn fórum við örlítið sveittir eftir baráttu við nokkur gil og festur. Af jöklinum skelltum við okkur niður í Vonarskarð og þaðan upp Jaðarinn og upp á Köldukvíslarjökul.

            Upp á Vatnajökli rann upp fyrir okkur að þetta gæti ekki varað endalaust þannig að við stoppuðum. Búnir að keyra um 150 km leið nánast úr miðbæ Akureyrar og upp á Vatnajökul. Jæja þetta var ágætt, Hlynur þóttist heyra eitthvað í fjarska kanski beljurnar hans, hver veit.             Af stað heim niður af Vatnajökli, norður Vonarskarð upp Gjóstuklifið framhjá Hníflunum yfir jaðar Tungnafelssjökuls og beinustu leið upp á Fjórðungsöldu. Já og þetta gerðirst nánast svona hratt, ýmindaðu þér bara púður og sól með. Klukkan 18 vorum við í Laugafelli aftur og afgangurinn af nestinu borðaður auk þess sem við bættum eldsneyti á fákana.

            Skelltum við fram þeirri snilldar hugmynd að fara bara niður Garðsárdalinn og auðvitað var hún samþykkt samhljóða. Þannig að næsti áfangastaður var Landakot og þaðan yfir snjóbreiðurnar þar sem hvergi sá á dökkann díl (nema kanski bóndann) að Gönguskarði. Skelltum við okkur þar niður og niður úr skarðinu og ofan í Garðsárdal. Sólin lék en við okkur þar sem við tættum niður dalinn í kapp við hvorn annann þar til við stoppuðumst á kerrunni okkar á Garði. Palli Hefill hafði auðvitað reddað bílnum og kerrunni okkar yfir í Garð.

            Klukkan rétt orðin átta og góður dagur með 330 km skrepp að baki.

                 Við fengum að svitna hressilega þarna.

                                Upp á Fjórðungsöldu.

Pétur R.

 


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is