Flýtilyklar
Aðstoðarbeiðni og gæsla
Rétt fyrir klukkan 11 í morgun barst aðstoðarbeiðni til Dalbjargarfélaga vegna þakglugga sem var að fjúka af fjósinu í Garði hér í sveitinni. Sex manns frá Dalbjörg fóru af stað til aðstoðar og festu niður þakgluggann. Hluti af glugganum hafði þó fokið af. Auðvitað var öryggi okkar manna vel tryggt, allir með hjálma og tryggðir með línu.
Á sunnudaginn var allhvöss austanátt líkt og spáð hafði verið í veðurfréttum. Ekki hafa borist fleiri aðstoðarbeiðnir til okkar vegna veðurs, enda lægði talsvert upp úr hádeginu á sunnudag.
Félagar Dalbjargar hafa einnig staðið vaktina í Tómasarhaga á Gæsavatnaleið vegna eldsumbrotanna sem nú eru í Holuhrauni og hafa alls verið þar um fjóra sólarhringa. Fyrirkomulagið er þannig að sveitir á svæði 11 hafa skipst á vöktum í Tómasarhaga í 1-2 sólahringa í senn, síðustu tvær vikurnar eða svo. Ekki er vitað hve lengi slík vakt á að standa á svæðinu, en við aðstoðum auðvitað eins og við getum.