• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Æfingaferð á Flateyjardalsheiði

Æfingaferð á Flateyjardalsheiði
Snjóbíllinn stóð fyrir sínu.
Föstudaginn 28. mars lögðum við upp í Hjálparsveitarferð út á Flateyjardalsheiði.  Ferðinni var heitið inn í Heiðarhús, sem er gangnamannaskáli útá Flateyjardal.
 Við hittumst að venju við Leiru þar sem við komum okkur í bíla og gerðum allt klárt.  Við vorum tólf talsins á báðum bílunum okkar, með báða sleðana og gamla snjóbílinn okkar Bangsa, auk einkasleða og fjórhjóls.  Þrír menn frá Týr á Svalbarðseyri slógust í för með okkur á sínum jeppa og tók Máni (risaeðlan) með sér trailerinn sinn (Arctic cat).

Við keyrðum inn að Þverá í Dalsmynni og tókum tækin af kerrunum og héldum af stað.  Færið var ansi þungt fyrir jeppana og skyggni lítið. Sleðaflokkurinn fór á undan og var kominn í Heiðarhús um níu leytið þar sem þeir kveiktu upp og tóku í nokkur spil, en héldu svo aftur út og keyrðu um á sleðunum þar sem færið var frábært fyrir þá.  Jeppamenn fóru hægar yfir og var svoltið bras í púðrinu á heiðinni.  Til að fullnýta þessa æfingarferð ákvað "óvart" einn bílstjórinn að affelga annað framdekkið hjá sér og fór drjúgur tími í að moka holur, hoppa og berja dekkið á felguna aftur.
Ingi er búinn að eyða miklum tíma í að koma snjóbílnum í betra form og reyndist það okkur vel á heiðinni þar sem bílinn nýttist vel í að kippa í bíla ef á þurfti að halda og ryðja sneiðing sem var annars ófær. Við vorum svo öll komin í Heiðarhús um kl 01:00 og grilluðum þá pylsur handa svöngum mannskapnum og spjölluðum eitthvað frameftir.
Morguninn eftir komu Kristján Bubbi og Valtýr frá Björgunarsveitinni Þingey og slógust þeir í hópinn með sleðamönnum sem tóku ferð um svæðið.  Hópurinn ákvað að halda heim á leið þar sem skyggni var ekki mikið. Þá fengu Pétur Karls, Jón Elvar, Róbert, Sigrún og Jóhann að fara á tækjunum heim, og lærðu þau mikið af því að keyra undir leiðsögn og stóðu þau sig frábærlega og þóttu sumum nóg um hvað Cruiserinn var farinn að vaða vandræðalaust áfram. Róbert ók Patrol heim og gaf Cruiser lítið eftir þó hann hafi fengið föðurlega ræðu hjá Pétri R um hvernig á "ekki" að halda um stýri á jeppa.  Pétur Karls, Valli, Jón Elvar og Jóhann skiptust á að aka sleðunum undir eftirliti hins ábyrga Smára Sig sleðadeildarformanns, "kjellinn sjálfur" ;)  
Ferðin var frábær í alla staði og gekk áfallalaust fyrir sig, fyrir utan það að dekk undan snjóbílakerrunni ákvað gefa sig með látum. Það var þó lán í óláni að við vorum stödd á útkallssvæði Týsmanna og tólf mínútum eftir að hjálparbeiðni frá okkur barst þeim voru þeir mættir með hjólatjakk og mátti sjá á þeim að þeim leiddist ekki að aðstoða okkur í óförum okkar.





comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is