• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Blómaskála breytt í björgunarsveitarhús


Á haustdögum árið 2013 varð langþráður draumur félaga í Hjálparsveitinni Dalbjörg  í Eyjafjarðarsveit um stærra húsnæði fyrir sveitina að veruleika. Þann 4. október 2013 var skrifað undir samning um kaup á gamla blómaskálanum sem stendur í Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit, en kaupin eru stærsta fjárhagslega skuldbinding Hjálparsveitarinnar Dalbjargar frá upphafi. 

Sveitin er þannig komin í mun stærra húsnæði en áður sem hentar betur fyrir starfsemina og einnig nær kjarna sveitarfélagsins. Fyrra húsnæði er staðsett í Bangsabúð við Steinhóla í Saurbæjarhreppi og flutti Hjálparsveitin Dalbjörg formlega úr gamla húsnæðinu þann 23. nóvember 2013. 

Þrotlaus vinna hefur verið innt af hendi síðustu vikur og mánuði til þess að standsetja nýja húsið eins og félagar vilja hafa það. Það hefur verið sett innkeyrsluhurð á húsið, settur upp fundarsalur og nýtt eldhús útbúið ásamt búnaðarherbergi og tækjasal og eiga félagar mikið hrós skilið fyrir dugnaðinn. Enn er þó margt eftir til þess að húsið verði fullbúið og mikil vinna er framundan fyrir félaga sveitarinnar. 
 
En nýtt hús þarf nýtt nafn og því hefur Hjálparsveitin Dalbjörg beðið vini og velunnara um að koma á framfæri nafnatillögum á nýja húsið með því að senda tölvupóst á netfangið dalbjorg@dalbjorg.is. Allar sniðugar tillögur eru vel þegnar.
 
Í sveitinni starfa um 40 virkir félagar og mikið líf hefur verið í störfum sveitarinnar síðustu mánuði, þrátt fyrir mikla vinnu í nýja húsinu samhliða venjubundnum störfum. Félagar sveitarinnar sækja reglulega námskeið sem tengjast starfinu, fara í æfingaferðir, sinna fjáröflunum eins og flugeldasölu nú um áramótin og fleiru sem til fellur. Fræðast má um líf og störf félaga í Dalbjörg með því að skoða glæsilega, uppfærða heimasíðu sveitarinnar, dalbjorg.is sem fór í loftið þann 4. mars með ómetanlegri aðstoð frá starfsmönnum Stefnu.

Mánudaginn 24. febrúar 2014 var nýafstaðin mikil vinnuhelgi í nýja húsnæðinu. Við fengum fréttamenn N4 sjónvarps í heimsókn til okkar, til að líta á nýja húsið og sjá hvernig verkinu vindur fram. Haraldur Þór Óskarsson formaður og Eiður Jónsson varaformaður tóku á móti þeim, en fréttin var sýnd í þættinum Að norðan í N4 sjónvarpi 25. febrúar og hana má sjá með því að smella hér.
 

comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is