Flýtilyklar
Dalborg
Dalborg er nafnið á nýja húsinu okkar, en kosið var um það á aðalfundi sveitarinnar sem haldinn var í gær, á sumardaginn fyrsta.
Nafnið vísar bæði til nafnsins á Hjálparsveitinni Dalbjörg, en einnig til annarra samkomustaða íbúa í Eyjafjarðarsveit sem margir bera nafn með endingunni -borg, s.s. Laugarborg, Félagsborg og Funaborg.
Þetta nafn var valið eftir miklar vangaveltur og yfirferð á tillögunum, en um 40 nafnatillögur bárust okkur frá fjölmörgum sveitungum og velunnurum, sem og meðlimum Dalbjargar. Það er Ragnar Jónsson, félagi í Hjálparsveitinni Dalbjörg sem á heiðurinn af þessari hugmynd.
Við þökkum öllum sem tóku þátt kærlega fyrir að hugsa til okkar og hjálpa okkur við þessa ákvörðun. Við höfum trú á því að þetta fallega nafn öðlist fastan sess meðal félaga Dalbjargar, sveitunga okkar og annarra velunnara sveitarinnar.
Það líður svo að formlegri opnun á húsinu okkar og munum við auglýsa dagsetningu hennar mjög fljótlega. Við vonumst til að sjá ykkur sem flest þar til að gleðjast með okkur.
Kveðja
Stjórn Hjálparsveitarinnar Dalbjargar.