Flýtilyklar
Hálendisferð sleðaflokks.
04.03.2008
Um síðustu helgi fór sleðaflokkur sveitarinnar í ferð upp á hálendið. Farið var á fjórum sleðum, Dalbjargarsleðunum
tveimur, Smári Sig á sínum sleða og síðan fékk Pétur nýjan Artic Cat M8 sleða lánaðan hjá Tryggva Aðalbjörns.
Hópurinn lagði af stað á föstudagskvöldið og farið var upp Vatnahjallann, suður í Laugafell og gist þar.
Á laugardeginum var tankað og haldið af stað suður í Nýjadal. Þar var veðrið leiðinlegt, hvasst og ofankoma. Við
héldum þess vegna vestur yfir Kvíslaveituveg yfir Þjórsárver og í Nautöldu þar sem við mokuðum okkur inn og fengum okkur
hádegissnarl. Í Nautöldu fengum við heimsókn eða 25 konur sem voru í Kvennaferð 4x4. Þaðan fórum við síðan áfram
vestur í gegnum Setur og í Kerlingafjöll þar sem við heilsuðum upp á sleðamenn LÍV. Síðan renndum við norður
Kjöl beinustu leið í Hveravelli í góðu veðri og skyggni. Á Hveravöllum var allt stútfullt af jeppa- og sleðamönnum og þar sem
enn var bjart var ákveðið að halda norður fyrir jökul í Laugafell. Það var seinfarið og mjög snjólétt austan við
Ingólfsskála, Jökulsáin og Hnjúkahvísl opnar og erfitt að þræða framhjá melum í myrkrinu. Í Laugafell komu við
aftur um tíuleytið og var frábært að komast í heitan skálann og borða. Fljótlega fór að draga af mannskapnum eftir akstur dagsins og
hreinlega slökknaði á tveimur félögunum eftir matinn. Sunnudagsmorguninn var tekinn rólega og fóru þeir hörðustu út í
kófið og hentu sér í laugina á adamsklæðum. Blindað var á heimleiðinni en góð æfing fyrir hópinn þegar við
renndum noður í Bergland og niður Hafrárdalinn. Eknir voru rúmlega 300 km við misgóðar aðstæður, ekkert tjón og hópurinn
mjög ánægður með æfinguna.
Síðan fengum við þessa flottu heimsókn í Nautöldu.
Austan við Háöldu á sprengisandi.
Síðan fengum við þessa flottu heimsókn í Nautöldu.
Austan við Háöldu á sprengisandi.
comments powered by Disqus