• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Fjallaferð Unglingadeildarinnar

Föstudaginn 25. apríl fór unglingadeildin Bangsar í jeppaferð. Mæting var í Dalborg kl 16:30 og lagt af stað hálftíma síðar á þremur bílum með 12 manns. Ferðinni var heitið uppí Réttartorfu í Bárðardal þar sem gist var eina nótt.

Ferðin uppeftir gekk mjög vel og var sól og blíða á okkur allan föstudaginn. Þegar komið var í skála vorum við fljót að koma okkur fyrir og umsjónarmenn og Ingi bílstjóri hófust handa við að útbúa kvöldmat sem var að þessu sinni grillað lambalæri og tilheyrandi. Sunna bílstjóri skellti sér með nokkrum af strákunum uppí gil fyrir ofan Réttartorfu að renna sér á rassaþotum, aðrir höfðu það gott í skálanum á meðan beðið var eftir matnum. Gítaristi ferðarinnar spilaði svo frameftir kvöldi og var mikið sungið.

Morguninn eftir var lagt af stað í brakandi blíðu frá Réttartorfu og stefnan tekin á skála sem  heitir Slakki og er í Hraunárdal en þar var hádegisnestið borðað. Þaðan var farið upp að Marteinsflæðum að svokallaðri Hitulaug þar sem tveir unglingar tóku sig til og skelltu sér í bað. Við fórum yfir Skjálfandafljótið á Gæsavatnaleið og sem leið lá að Sandbúðum þar sem dimmdi talsvert og skall á okkur mikil þoka sem hægði verulega á för okkar. En við vorum með góða bílstjóra og var keyrt eftir GPS í Galtaból, Landakot og þaðan niður að Kerhólsöxlinni og komum við niður í Sölvadal um kl 21:30.

Við tölum örugglega fyrir munn allra þegar ég segi að þessi ferð var mjög skemmtileg og allir komu sáttir heim. Við umsjónarmenn viljum þakka Inga, Sunnu og Hreiðari bílstjórum ferðarinnar fyrir að hafa komið með og komið okkur öllum heilum heim ;) Elmari þökkum við einnig fyrir lánið á bílnum. 

Kv. Gulla og Bjarney, umsjónarmenn.


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is