• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Haustferð 2014

Föstudaginn 24. október héldum við í okkar árlegu haustferð, ferðinni var heitið í Kerlingafjöll þar sem við gistum svo tvær nætur. Við hittumst í Dalborg seinnipartinn, 17 manns á 5 bílum. Fyrsta stopp var í Varmahlíð þar sem hópurinn tók kvöldmat áður en haldið var á fjöll. Við ókum suður Kjöl og vorum komin í Kerlingafjöll um kl. 22:00 og ferðin gekk mjög vel.

Á laugardagsmorgni var hópurinn ræstur með hafragraut uppúr kl 8. Ákveðið var að keyra hring um svæðið og skoða okkur um. Frá Kerlingafjöllum keyrðum við að skálanum Setri og vorum við þar um hádegi svo við tókum hádegismat þar. Eftir að allir voru mettir var ekið sem leið lá að Kisugljúfri sem var mjög stórfenglegt og flott að standa á gilbrúninni og horfa ofan í það. Við keyrðum svo frá Kisugljúfri að skála sem heitir Klakksskáli og þaðan í Leppistungur. Þegar við vorum á leið um Kerlingaflatir á leið í Kerlingafjöll keyrðum við fram á gangandi mann sem sagðist hafa fest bíl sinn í á þarna rétt hjá. Við fórum að ánni og hjálpuðum honum og félögum hans sem voru í bílnum að ná bílnum upp úr ánni og breyttist ferðin í björgunaraðgerð. Við héldum svo heim í skála og var grillað, borðað, sungið og spilað á gítar fram eftir kvöldi.

Sunnudagsmorguninn hófst líka á hafragraut einsog er orðið að hefð í okkar ferðum. Ákveðið var að kanna gönguleiðir um Hveragil og var hluta af hópnum skutlað upp eftir gilinu og var áætlunin að komast ofan í gilið og labba niður í skála, þetta varð tæplega tveggja tíma ganga sem heppnaðist mjög vel. Hópurinn skipti sér í tvennt og fórum við niður á tveimur stöðum í gilið og mættumst svo niðri. Þetta var sannkölluð ævintýraganga og mjög skemmtileg.

Haldið var heim á leið um Kjöl með viðkomu á Hveravöllum. Við Dúfunesfell á Kili keyrðum við fram á 2 jepplinga sem í voru 9 erlendir ferðamenn sem höfðu fest annan jepplinginn á steini og komust hvergi. Við losuðum bílinn fyrir þau og ókum þeim jafnframt niðrá þjóðveg 1 þar sem Kjölur var ekki fær fyrir bíla af þessari stærð. Þau þökkuðu vel og innilega fyrir og voru fegin að komast á góðan veg aftur. Kvöldmatur var svo tekin í Varmahlíð og komum við svo í Dalborg um kl. 21:00. 

Undirrituð vil þakka kærlega fyrir frábæra ferð. 

Guðlaug Sigríður Tryggvadóttir

 

 


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is