Flýtilyklar
Björgun á frönskum skíðagöngumönnum
12.02.2008
Svæðisstjórn á svæði 11 var kölluð út upp úr hálf tvö í dag vegna tveggja skíðagöngumanna sem voru í vandræðum á hálendinu ofan Eyjafjarðar. Mennirnir lögðu af stað inn á hélendið í gær og ætluðu að ganga suður og yfir það. Þegar þeir voru komnir upp að Urðarvötnum urðu þeir að tjalda og halda kyrru fyrir þar sem vonskuveður var á svæðinu.
Höfðu þeir samband við tengilið sinn og báðu um hjálp þar sem þeir treystu sér ekki út úr tjaldinu.Hjálparsveitin Dalbjörg var kölluð út laust fyrir klukkan tvö og voru þá félagar okkar frá Súlum á Akureyri að taka sig til. Klukkutíma síðar voru alls tíu manns frá hvorri sveit á fjórum jeppum, fimm sleðum og snjóbíl komnir að Hólsgerði og héldu inn eftir og upp Vatnahjallann.
Sleðamenn Dalbjargar fundu mennina á miðjum Urðarvötnum við GPS-punkt sem skíðamennirnir höfðu gefið upp. Voru mennirnir fluttir á sleðum í bílana sem voru að koma upp Vatnahjallann. Þeir voru þá orðnir ískaldir eftir veruna í tjaldinu en hresstust fljótlega eftir að þeir komu í heitan bíl. Björgunarsveitirnar héldu niður til byggða með mennina og voru komnar klukkan 17 í Grænuhlíð þar sem húsráðendur voru með heitt á könnunni og bakkelsi handa liðinu.
Smári að binda farangur mannanna á sleðann sinn.
Smári, Ingi, Sunna, Ragnar og Halli við Dalbjörg 1.
Gummi og Njáll Súlufélagar nýkomnir niður af Hafráradal.
Myndirnar tók Njáll félagi okkar í Súlum á Akureyri.
comments powered by Disqus