Flýtilyklar
Óveðursútköll í dag
Aftakaveður hefur gengið yfir landið í dag og höfum við ekki farið varhluta af því hér í sveitinni. Í Öxnafelli mældist vindhraði 43,7 m/s um kaffileytið í dag, ekki hefur mælst meiri vindstyrkur þar síðan mælingar hófust. Á Torfum fór vindhraði í hviðum upp í 34 m/s.
Björgunarsveitin hefur verið kölluð út þrisvar sinnum í dag til að aðstoða íbúa sveitarinnar vegna hvassviðris og skemmda af völdum þess.
Upp úr kl 16 var óskað eftir aðstoð við að hemja mótauppslátt við Öngulsstaði sem var farinn að fjúka af stað.
Fljótt upp úr því fauk fóðursíló og síðan stór partur þaks á kálfafjósi í Sigtúnum. Tíu björgunarsveitarmenn unnu við að negla niður lausar plötur, fergja brak og tryggja fóðursílóið við dráttarvélar.
Á sama tíma var óskað eftir aðstoð björgunarsveitarinnar í Uppsali en þar voru útihús farin að láta undan veðurofsanum. Sjö manns fóru þangað til að styrkja veggi og negla niður þakjárn.