Flýtilyklar
Sól, sól og aftur sól á fjöllum
Helgina 14-16 mars var hálendisferð farin á vegum sveitarinnar. Hittingur var á Leirunni kl 17 og var haldið af stað hálftíma síðar eftir að menn voru búnir að samstilla sig og koma sér fyrir í bílunum. Alls vorum við níu Dalbjargarmeðlimir á þremur bílum og tveir meðlimir úr Björgunarsveitinni Týr á Svalbarðsströnd á sínum bíl, auk tveggja manna á einkabíl. Ferðinni var heitið í Laugarfell
og var farið um Bárðardal. Færið var mjög þungt og snéri einkabíllinn heim á leið fljótlega, þar sem útlit var fyrir að ferðin myndi taka lenri tíma en áætlað var. Týsmenn fengu að hanga í spotta aftan í Dalbjargarpatrol frá Galtabóli og upp í Laugarfell sökum bilaðrar kúplingar. Við komum í skála um kl 03:30, en þá voru ferðalangar orðnir ansi þreyttir og voru fegnir að snæða síðbúinn kvöldverð. Á laugardagsmorgun lögðum við í hann um 11 leytið og stefnan var tekin í Sandbúðir þar sem við litum inn. Þaðan ókum við yfir Marteinsflæður og yfir brúnna yfir Skjálfandafljót. Þegar við komum upp að Gæsavatnaskála snæddum við hádegisverð í blíðskaparveðri. Frá Gæsavötnum lá leið okkar niður Gjóstuklifið og um Vonarskarð. Þar tókum við smá likkju uppá Köldukvíslarjökul áður en við héldum fyrir Tungnafellsjökul, í gegnum Jökuldal og þaðan í Laugarfell. Frábær dagur að baki og um kvöldið gæddum við okkur á grilluðum lambalærum og rökræddum hetjudáðir dagsins.Að morgni sunnudagsins fórum við á ról um 8 leytið og tókum við stefnuna á Skagafjörð. Þar sem færi var mjög létt og veður frábært tókum við smá útúrdúr vestur í Ingólfsskála. Þar hittum við félaga úr Strákum á Siglufirði en þeir voru á ferðinni á 4 bílum, 3 sleðum og snjóbíl. Stoppið varð þó aðeins lengra en áætlað var því nokkrir meðlimir Dalbjargar fengu að taka aðeins í snjóbílinn þeirra og aðrir fengu að setjast á sleðana og varð einn félagi okkar nærri því eftir uppá Hofsjökli við þá skemmtun. Gaman var að hitta á þennan hóp og þökkum við Strákunum kærlega fyrir. Við héldum leið okkar áfram og stoppuðum á miðju Íslands við Illviðrahnjúka áður en við héldum til baka og niður í Skagafjörð.
Heimferðin gekk mjög vel og vorum við komin til Akureyrar um 18:30 eftir rúmlega 600 km ferðalag.