Flýtilyklar
Útkall 11. nóvember
Hjálparsveitin Dalbjörg fékk beiðni um eftirgrennslan rétt fyrir kl. 23:00 miðvikudagskvöldið 11. nóvember um eftirgrennslan eftir ungum mönnum sem ekki höfðu skilað sér til byggða úr ferð upp að Laugafelli. Fimm félagar Dalbjargar héldu af stað á tveimur jeppum sveitarinnar auk þess sem einn var í svæðisstjórn. Þegar upp var komið fannst slóð frá Laugafelli og áleiðis í Skagafjörð. Dalbjörg 1 fór þá að Laugafelli til frekari athugunar en Dalbjörg 2 rakti slóðina austur Dragaleið. Drengirnir fundust á Skagafjarðarleið um kl. 02:00. Þeir höfðu ætlað til baka þá leið en bíllinn varð óökufær eftir að þeir óku yfir Hnjúkskvísl við Laugafell. Drengirnir voru fluttir til byggða heilir á húfi en bíllinn skilinn eftir og verður sóttur síðar.
Eins og lögreglan benti á í frétt sinni um málið er þetta skýrt dæmi að ferðalög til fjalla að vetri til krefjast þekkingar, undirbúnings, góðs skipulags og öflugs búnaðar ef allt að ganga upp. Gott að allt fór vel í þetta skiptið.