• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Útköll í sumar

Aðstoð á Eyjafjarðardal

Þann 14. júní sl. óskuðu fjórir einstaklingar eftir aðstoð. Þeir höfðu ætlað í Laugarfell en festu bíl sinn á Eyjafjarðardal. Þeir gengu niður dalinn um nóttina og létu vita af sér í Hólsgerði. Farið var á Dalbjörg 1 upp dalinn til þess að losa bilinn og hann var fluttur niður í Hólsgerði. Ferðalangana sakaði ekki og var komið til síns heima.

Leit við Þórisvatn

Þann 21. júlí um kl. 05:25 barst útkall vegna göngumanna sem orðið höfðu viðskila á göngu frá Hofsjökli. Annar komst í bíl hjá ferðamönnum við Þórisvatn en hafin var leit að hinum manninum. Fimm manns lögðu af stað á Dalbjörg 1 til aðstoðar, en maðurinn fannst heill á húfi áður en félagar Dalbjargar komust á leitarstað.

Leit að flugvél

Þann 9. ágúst upp úr kl. 18:00 barst Hjálparsveitinni Dalbjörg útkall vegna flugvélar sem hafði lagt af stað kl. 14:10 frá Akureyri til Keflavíkur, en ekki skilað sér á áfangastað. Aðgerðin var stór og fjölmargar björgunarsveitir voru kallaðar út til leitar, eða rúmlega 40 talsins. Fjórir félagar fóru af stað til leitar á Dalbjörg 1 og var farið upp Garðsárdalinn þar sem þrír félagar gengu upp dalinn frá skálanum Adda. Um kl. 21:00 fannst flugvélin við Gíslahnjúk í Barkárdal, sem er inn af Hörgárdal. Tveir menn voru í vélinni og var annar látinn. Dalbjörg 1 var kominn í hús um miðnætti en svo gegndu tveir félagar gæslustörfum um nóttina við Barkárdal. 

Aðstoð við vélhjólamann á Garðsárdal

Þann 15. ágúst óskaði vélhjólamaður sem var á ferð inn á Garðsárdal eftir aðstoð, en hjólið hans hafði bilað. Tveir félagar Dalbjargar fóru til aðstoðar og komu manninum heilum á húfi til byggða, ásamt hjólinu. 

Leit að konu á Vaðlaheiði

Þann 25. ágúst barst útkall um kl. 18:22 vegna leitar að göngukonu á Vaðlaheiði, en skollið hafði á þoka þá um daginn. Konan var í símasambandi framan af og rataði ekki til baka, en var vön göngum og vel búin. Frá Dalbjörg fóru níu manns til leitar, en konan fannst um kl. 19:50, heil á húfi.

Leit að konu í Sölvadal

Aðfaranótt 26. ágúst barst aðstoðarbeiðni vegna konu sem hafði verið í girðingarvinnu í Sölvadal. Þoka var á svæðinu og var hún orðin villt. Tveir félagar fóru þegar til aðstoðar og fannst konan stuttu seinna. 

Aðstoð á Eyjafjarðardal

Að kvöldi 26. ágúst barst aðstoðarbeiðni vegna tveggja ferðamanna í vandræðum á Eyjafjarðardal, en bifreið þeirra hafði bilað. Þau höfðu reynt að ganga til byggða en snúið við í bifreiðina. Fjórir félagar fóru á Dalbjörg 1 og 2 til aðstoðar og komu ferðamönnunum til byggða, en þá hafði ekki sakað. 

Fastur bíll í Þormóðsdal

Þann 3. september fóru þrír félagar Dalbjargar til aðstoðar ökumanni á bifreið sem notuð var til að flytja gangnamenn upp á Hólafjall. Bifreiðin sat föst og var ökumanninum hjálpað við að losa bifreiðina. 


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is