• Hjálparsveitin Dalbjörg - 2011 - undirsíður

Vígsla Dalborgar

Vígsla Dalborgar
Hannes Blandon prestur

Laugardaginn 17. maí sl. var nýtt húsnæði Hjálparsveitarinnar Dalbjargar formlega vígt.

Veðrið lék við Dalbjargarfélaga og gesti þennan dag og margir af sveitungum og velunnurum litu við. Boðið var upp á tertu, kleinur og auðvitað ís - í síðasta skipti í gamla blómaskálanum sem nú hefur fengið nýtt hlutverk. 

Hannes Blandon, presturinn okkar, vígði húsið formlega og hafði mörg falleg orð um störf björgunarsveita í landinu. Oddvitinn okkar, Arnar Árnason söng tvö vel valin lög og formaðurinn Kristján Hermann Tryggvason fór yfir húsnæðismálin okkar síðustu ár og ástæður þess að nýtt húsnæði var orðin nauðsyn fyrir okkur, en eins og flestir vita hafði eldra húsnæðið okkar sprengt utan af sér starfsemina á síðustu árum. 

Hjálparsveitin Dalbjörg hefur vaxið og dafnað mikið frá stofnun sveitarinnar fyrir rúmum 30 árum og hefur það áorkast vegna öflugs starfs góðra og duglegra félaga. Breytingar hafa verið miklar, en til dæmis hefur tækjakostur farið úr einni bifreið upp í öll þau tæki sem við eigum í dag. Félögum hefur fjölgað, menntun aukist og nú höfum við eignast nýtt húsnæði sem rúmar alla hluta starfsins okkar. Við erum nú staðsett í kjarna sveitarfélagsins og höfum trú á því að þetta efli starf Dalbjargarfélaga enn frekar. 

Það skal þó ávallt hafa í huga að það skiptir ekki máli hvers konar breytingar við göngum í gegnum og hvað við eignumst mörg ný tæki og tól, nema góðir félagar séu til staðar. Alltaf er það mannauðurinn sem skiptir okkur mestu máli og sem allt mæðir á. Án öflugra félaga og auðvitað hinna fjöldamörgu velunnara okkar væri sveitin ekki stödd þar sem hún er í dag.


comments powered by Disqus

Svæði

Hjálparsveitin Dalbjörg • Dalborg, Hrafnagilshverfi • 605 Akureyri • 8650129 • dalbjorg@dalbjorg.is